Um landsskipulagsstefnu
Landsskipulagsstefna felur í sér stefnu ríkisins í skipulagsmálum og almenn sjónarmið til leiðbeiningar við skipulagsgerð sveitarfélaga. Henni er ætlað að tryggja heildarhagsmuni við gerð skipulagsáætlana sveitarfélaga og stuðla að sjálfbærri þróun. Einnig á landsskipulagsstefna að stuðla að samræmingu í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga um þróun byggðar og landnýtingu.
Landsskipulagsstefna er unnin á grundvelli skipulagslaga og reglugerðar um landsskipulagsstefnu.
Viðfangsefni landsskipulagsstefnu
Viðfangsefni landsskipulagsstefnu geta varðað ákveðin þemu, tiltekna landshluta eða landgerðir, svo sem gæði byggðar, búsetulandslag, loftslagsmál, vernd náttúru og menningarminja, náttúruvá, samspil landnotkunar og samgangna eða samspil landnotkunar og lýðheilsu. Þá er í landsskipulagsstefnu ávallt sett fram stefna um skipulagsmál miðhálendisins og um skipulag haf- og strandsvæða.
Áhrif landsskipulagsstefnu
Landsskipulagsstefnu er fyrst og fremst framfylgt í gegnum skipulagsáætlanir sveitarfélaga. Samkvæmt skipulagslögum skulu sveitarfélög taka mið af landsskipulagsstefnu við gerð svæðis- og aðalskipulags.
Landsskipulagsstefna getur einnig haft áhrif á áætlanir stjórnvalda á landsvísu sem varða landnotkun, svo sem um samgöngur eða orkumál. Þá getur hún einnig falið í sér tiltekin verkefni, svo sem leiðbeiningar- eða þróunarverkefni, til að hrinda markmiðum stefnunnar í framkvæmd.
Mótun landsskipulagsstefnu
Ráðherra skipulagsmála felur Skipulagsstofnun gerð tillögu að landsskipulagsstefnu.Landsskipulagsstefna er unnin í virku samráði við sveitarfélög og samtök þeirra, opinberar stofnanir og félagasamtök. Jafnframt er leitast við að tryggja að almenningur eigi þess kost að fylgjast með mótun landsskipulagsstefnu og koma á framfæri ábendingum og athugasemdum í ferlinu. Starfræktur er sérstakur samráðsvettvangur vegna mótunar landsskipulagsstefnu. Auk þess er starfandi ráðgjafarnefnd sem er Skipulagsstofnun og ráðherra til ráðgjafar við mótun landsskipulagsstefnu.
Þegar tillaga Skipulagsstofnunar liggur fyrir tekur ráðherra hana til skoðunar og leggur síðan fram tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu á Alþingi. Landsskipulagsstefna tekur gildi þegar Alþingi hefur samþykkt hana sem þingsályktun.