Tillaga í vinnslu

Loftslag, landslag, lýðheilsa

Tillaga Skipulagsstofnunar að viðauka við Landsskipulagsstefnu 2015–2026 var afhent umhverfis- og auðlindaráðherra vorið 2021. Ráðherra lagði hana fram sem þingsályktunartillögu á Alþingi í apríl en hún hlaut ekki afgreiðslu á 151. löggjafarþingi 2020–2021. Þingsályktunartillöguna og upplýsingar um meðferð málsins á Alþingi er að finna hér.

Í tillögunni er sett fram stefna um loftslagsmál, landslag og lýðheilsu í tengslum við framkvæmd skipulagsmála. Þær áherslur sem þar eru settar fram fléttast með ýmsum hætti saman við viðfangsefni gildandi landsskipulagsstefnu sem samþykkt var á Alþingi árið 2016 og tekur til skipulagsmála á miðhálendinu, í dreifbýli og þéttbýli og á haf- og strandsvæðum. Tillagan felur einnig í sér viðbætur við gildandi landsskipulagsstefnu varðandi skipulag haf- og strandsvæða.

Tillagan er afraksturs viðamikillar undirbúningsvinnu sem fram fór á árunum 2019–2021 og fól í sér ítarlegt samráð og fjölbreytt greiningarverkefni. Nálgast má tillögu Skipulagsstofnunar auk helstu gagna sem urðu til við mótun hennar hér. Rík áhersla var lögð á gegnsæi við mótun tillögunnar og reglulega í ferlinu var leitað eftir ábendingum og hugmyndum almennings og hagsmunaaðila, auk þess sem Skipulagsstofnun stóð fyrir morgunfundaröð um viðfangsefni tillögunnar.