Tillaga í vinnslu
Loftslag, landslag, lýðheilsa
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur
falið Skipulagsstofnun að vinna tillögu að breytingu á Landsskipulagsstefnu
2015-2026 sem felist í nánari stefnumótun um skipulag byggðar og landnýtingar
með tilliti til loftslagsmála, landslags og lýðheilsu. Jafnframt verði gildandi
stefna um skipulagsmál haf- og strandsvæða yfirfarin. Þá verði litið til
Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun við mótun stefnunnar.
Tillaga Skipulagsstofnunar að viðauka við Landsskipulagsstefnu 2015-2026 var kynnt 13. nóvember 2020 og er frestur til að koma skriflegum athugasemdum á framfæri við Skipulagsstofnun til og með 8. janúar 2021.
Eftir að kynningartíma tillögunnar lýkur tekur Skipulagsstofnun afstöðu til framkominna umsagna og athugasemda og skilar í kjölfarið endanlegri tillögu stofnunarinnar að landsskipulagsstefnu til umhverfis- og auðlindaráðherra. Stofnunin gerir jafnframt þeim aðilum sem gerðu athugasemdir við hina auglýstu tillögu grein fyrir umsögn sinni um þær.
Umhverfis- og auðlindaráðherra tekur tillögu Skipulagsstofnunar til
skoðunar og leggur í kjölfarið fram tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu á Alþingi, að höfðu samráði við Samband íslenskra
sveitarfélaga og hlutaðeigandi ráðuneyti.
Landsskipulagsstefna öðlast gildi þegar hún hefur verið afgreidd sem
þingsályktun frá Alþingi.
Hér gefst kostur á að fylgjast með framvindu verkefnisins. Öll umgjörð vinnunnar miðar að því að hún sé opin og aðgengileg og að reglulega sé leitað eftir ábendingum og hugmyndum almennings og hagsmunaaðila.
Þeir sem vilja fá sendar upplýsingar um framgang vinnunnar geta skráð sig á samráðsvettvang landsskipulagsstefnu. Einnig er hægt að koma spurningum, ábendingum og athugasemdum á framfæri hér.