29.1.2020

Skipulagi beitt til að ná árangri í loftslagsmálum

Morgunfundaröð um landsskipulagsstefnu

  • Af morgunfundi um loftslagsmál og skipulag

Þétt og blönduð byggð, innviðir fyrir fjölbreytta ferðamáta og markviss bílastæðastefna var meðal þess sem bar á góma á þriðja morgunverðarfundi um mótun landsskipulagsstefnu sem Skipulagsstofnun og Loftslagsráð héldu sameiginlega í Iðnó 28. janúar sl. Yfirskrift fundarins var Loftslagsmál og skipulag í þéttbýli – Hvernig má ná árangri í loftslagsmálum með skipulagsgerð? Tilefni fundarins var yfirstandandi vinna við gerð viðauka við landsskipulagsstefnu þar sem meðal annars verða settar fram leiðbeiningar til sveitarfélaga um hvernig má beita skipulagsgerð til að tryggja viðeigandi aðgerðir í loftslagsmálum. Fundurinn var vel sóttur auk þess sem margir fylgdust með í gegnum streymi, en öllum fundum morgunfundaraðarinnar er streymt á Facebook-síðu Skipulagsstofnunar.

Aukin losun frá vegasamgöngum

Á fundinum var fjallað um tengsl skipulagsgerðar og loftslagsmála frá ýmsum sjónarhornum. Halldóra Hrólfsdóttir, skipulagsfræðingur hjá Alta, kynnti verkefni sem hún vinnur að fyrir Skipulagsstofnun í tengslum við yfirstandandi landsskipulagsvinnu. Verkefnið felst í að draga fram dæmi um skipulagsaðgerðir sem hægt er að beita í þéttbýli til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að aðlögun að áhrifum loftslagsbreytinga. Halldóra lagði sérstaka áherslu á aðgerðir á sviði samgangna, en losun frá vegasamgöngum hefur aukist á allra síðustu árum og er nú orðin 34% af þeirri losun sem íslensk stjórnvöld bera beina ábyrgð á.

Hrönn Hrafnsdóttir og Haraldur Sigurðsson frá Reykjavíkurborg fóru því næst yfir stefnu borgarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040 og gerðu grein fyrir því hvernig loftslagsstefna borgarinnar endurspeglast í aðalskipulagi Reykjavíkur. Fram kom að losun frá bílaumferð er stærsta áskorun borgarinnar á sviði loftslagsmála, en til hennar má rekja meira en helming losunar í Reykjavík. Um þessar mundir er unnið að endurskoðun á ýmsum þáttum í aðalskipulagi borgarinnar, meðal annars vegna uppbyggingar meðfram Borgarlínu og þéttingar byggðar með áherslu á vistvænar samgöngur.

Mat á kolefnisspori sveitarfélaga

Að lokum fjallaði Sigurður Loftur Thorlacius hjá EFLU verkfræðistofu um niðurstöður verkefnis sem EFLA vann nýlega með styrk úr Rannsóknar- og þróunarsjóði Skipulagsstofnunar og fjallar um mat á kolefnisspori sveitarfélaga á skipulagsstigi. Sigurður lagði áherslu á hlutverk sveitarfélaga við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu og kynnti nokkrar leiðir sem sveitarfélög hafa úr að velja til að reikna út eigið kolefnisspor.

Á næsta morgunfundi, sem fer fram í byrjun mars, verður fjallað um lýðheilsu í samhengi skipulags. Fundaröðinni lýkur síðan í lok mars á málþingi sem tileinkað verður landslagi. Tímasetning og dagskrá þeirra viðburða verður kynnt þegar nær dregur og eru áhugasamir hvattir til að fylgjast með á vefsíðu landsskipulagsstefnu, www.landsskipulag.is.

Nálgast má glærur framsögufólks hér.