16.12.2019

Ný samantekt um skipulag vindorkunýtingar

Greining forsendna fyrir mótun landsskipulagsstefnu um loftslag, landslag og lýðheilsu

  • Vindmyllur á Hafinu

Skipulagsstofnun vinnur að viðauka við gildandi landsskipulagsstefnu þar sem mótuð verður nánari skipulagsstefna um meðal annars viðmið fyrir staðsetningu vindorkuvera með tilliti til landslags.

Stofnunin hefur á undanförnum mánuðum ýtt úr vör margvíslegum greiningarverkefnum til að draga fram þekkingu um þau áhersluatriði sem ætlunin er að fjalla nánar um í landsskipulagsstefnu. Eitt verkefnanna fjallar um mótun skipulagsstefnu um vindorkunýtingu með tilliti til landslags. Samið var við Matthildi Kr. Elmarsdóttur, skipulagsfræðing hjá Alta, um að taka saman upplýsingar um hvernig staðið er að slíkri stefnumótun í völdum nágrannaríkjum og aðra þætti sem tengjast skipulagi og hönnun vindorkuvera með tilliti til landslags. Verkefninu er nú lokið og er hægt að nálgast samantekt Matthildar hér að neðan.

Í samantektinni er sjónum einkum beint að stefnumótun um staðarval vindorkuvera í Noregi og Skotlandi. Fjallað er um viðmið sem þróuð hafa verið í þessum löndum fyrir ákvarðanir um staðarval fyrir vindorkunýtingu á landsvísu. Samantektin fjallar einnig um hönnun vindorkuvera með tilliti til landslags og aðlögun þeirra að landslagi.

Skipulagsstofnun hélt í október morgunfund um vindorku og landslag þar sem Matthildur var meðal framsögufólks og kynnti efni samantektarinnar. Fundurinn var vel sóttur og sköpuðust líflegar umræður, meðal annars um hvaða lærdóm má draga af fyrirmyndum annarra ríkja við stefnumótun um vindorkunýtingu hér á landi.

Landslag og vindorka – Samantekt vegna mótunar landsskipulagsstefnu um landslag