29.11.2019

Losun frá framræstu votlendi kallar á endurskoðun aðalskipulags þegar í stað

Morgunfundur um skipulag landbúnaðarlands – samfélag, landslag og loftslag

Ofangreint var meðal þess sem fram kom á öðrum fundi morgunfundaraðar Skipulagsstofnunar um landsskipulagsstefnu sem fór fram þann 28. nóvember í húsakynnum Skipulagsstofnunar í Borgartúni. Yfirskrift fundarins að þessu sinni var Skipulag landbúnaðarlands – samfélag, landslag og loftslag og var fundurinn haldinn í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Skipulagsstofnun vinnur nú að tillögu til umhverfis- og auðlindaráðherra að viðauka við gildandi landsskipulagsstefnu þar sem lögð verður áhersla á þrjú viðfangsefni, loftslag, landslag og lýðheilsu. Morgunfundaröðin er liður í þeirri vinnu, en henni er ætlað að vera vettvangur kynningar og samtals um margvísleg verkefni sem unnið er að í tengslum við undirbúning tillögunnar.

Á fundinum var fjallað um skipulag landbúnaðarlands frá ýmsum hliðum. Í upphafi fundarins fór Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, stuttlega yfir viðfangsefni skipulagsyfirvalda í tengslum við þróun byggðar og nýtingu lands í dreifbýli. Í kjölfarið fjallaði Salvör Jónsdóttir skipulagsfræðingur um flokkun og skipulag landbúnaðarlands með tilliti til sjálfbærrar þróunar og matvælakerfis og kynnti hugmyndir um flokkun landbúnaðarlands sem hún setti fram í nýlegri skýrslu um efnið. Skýrsluna má nálgast hér. Þá fjallaði Jón Guðmundsson, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, um ýmislegt sem huga þarf að við ákvarðanatöku um landnýtingu í dreifbýli. Hann fór yfir hvaða gögn er hægt að nýta til að bæta slíkar ákvarðanir og hvaða úrbætur þarf að gera á upplýsingasöfnun, m.a. hvað varðar vöktun á ástandi umhverfisins og skráningu á nýtingu lands.

Að lokum fjallaði Stefán Gíslason, framkvæmdastjóri Environice, um losun gróðurhúsalofttegunda frá landi og sagði frá verkefnum sem hann hefur unnið um kolefnisspor nokkurra sveitarfélaga sem samanlagt ná yfir meira en tvo þriðju af öllu framræstu votlendi á Íslandi. Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum þessara verkefna má rekja yfirgnæfandi meirihluta af heildarlosun viðkomandi svæða til landnotkunar – og er losun frá framræstu votlendi þar langstærsti einstaki losunarþátturinn. Stefán lagði í máli sínu áherslu á þau miklu tækifæri sem felast í að draga úr losun hér á landi með verndun óraskaðs votlendis og endurheimt votlendis á óræktuðu landi. Skilaboð Stefáns voru skýr, að þáttur framræsts votlendis í heildarlosun Íslands kalli á tafarlausa endurskoðun aðalskipulags allra sveitarfélaga.

Góð mæting var á fundinn auk þess sem margir fylgdust með streymi á vefnum, en öllum fundum morgunfundaraðarinnar er streymt á Facebook-síðu Skipulagsstofnunar. Á næsta morgunfundi, sem haldinn verður í janúar, verður sjónum beint að samspili skipulags í þéttbýli og loftslagsmála. Tímasetning og dagskrá verður kynnt þegar nær dregur.

Nálgast má glærur framsögufólks hér.