8.2.2019

Loftslag, landslag, lýðheilsa

Nýtt landsskipulagsferli að hefjast

  • Í átt að Lómagnúp

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur falið Skipulagsstofnun að vinna að mótun skipulagsstefnu um loftslagsmál, landslag og lýðheilsu sem komi til viðbótar við Landsskipulagsstefnu 2015−2026 sem samþykkt var á Alþingi árið 2016.

Gert er ráð fyrir að Landsskipulagsstefna 2015−2026 gildi áfram en að mótuð verði nánari stefna um loftslagsmál, landslag og lýðheilsu í tengslum við framkvæmd skipulagsmála. Jafnframt verði gildandi stefna um skipulagsmál  haf- og strandsvæða yfirfarin og litið til Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun við mótun stefnunnar.

Landsskipulagsstefna er unnin á grundvelli skipulagslaga. Umhverfis- og auðlindaráðherra felur Skipulagsstofnun gerð tillögu að landsskipulagsstefnu en skipar jafnframt ráðgjafarnefnd sem er Skipulagsstofnun til ráðgjafar við mótun stefnunnar. Áætlað er að Skipulagsstofnun skili tillögu sinni til umhverfis- og auðlindaráðherra vorið 2020.

Ráðgjafarnefnd

Umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði í desember sl. ráðgjafarnefnd sem skal vera Skipulagsstofnun til ráðgjafar við mótun tillögunnar. Ráðgjafarnefndin kom saman til fyrsta fundar nú í lok janúar og má segja að það marki upphaf nýs landsskipulagsferlis.

Í ráðgjafarnefndinni sitja:

  • Steinunn Fjóla Sigurðardóttir, formaður, skipuð án tilnefningar.
  • Sigrún Birna Sigurðardóttir, skipuð án tilnefningar.
  • Arnór Snæbjörnsson, tilnefndur af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
  • Erla Sigríður Gestsdóttir, tilnefnd af ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
  • Hanna Dóra Hólm Másdóttir, tilnefnd af samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
  • Hrafnkell Á. Proppé, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
  • Sigurður Örn Guðleifsson, tilnefndur af forsætisráðherra.
  • Unnur Valborg Hilmarsdóttir, áheyrnarfulltrúi, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Samráðsvettvangur

Sem fyrr verður starfræktur samráðsvettvangur við mótun landsskipulagsstefnu. Aðilar sem skrá sig á samráðsvettvanginn fá sendar upplýsingar um framvindu verkefnisins, útgáfu nýs efnis og um kynningar- og samráðsfundi. Allir sem hafa áhuga á að fylgjast með starfinu geta skráð sig á samráðsvettvanginn á hér.

Kynning lýsingar og samráð um áherslur

Áformað er að kynna lýsingu fyrir verkefnið í mars næstkomandi. Þar verður gerð grein fyrir þeim viðfangsefnum sem umhverfis- og auðlindaráðherra hefur lagt fyrir, sem og hvernig fyrirhugað er að standa að mótun tillögunnar hvað varðar efnistök, umhverfismat og samráð. Lýsingin verður kynnt á vefnum og á kynningarfundum út um landið. Á sömu fundum verður boðið til samráðs um hvaða áherslur eigi að setja á oddinn við mótun stefnunnar. Kynning lýsingar og samráðsfundir verða auglýstir á næstu vikum.