Landslag flokkað og greint á landsvísu
Verkefni unnið í tengslum við gerð tillögu að landsskipulagsstefnu
Út er komin skýrslan Landslag á Íslandi – flokkun og kortlagning landslagsgerða á Íslandi. Hún hefur að geyma afrakstur verkefnis sem EFLA verkfræðistofa og Land Use Consultants í Skotlandi hafa unnið fyrir Skipulagsstofnun. Í skýrslunni er sett fram flokkunarkerfi fyrir landslagsgerðir á Íslandi. Skilgreindir eru sjö yfirflokkar landslags, en þeir eru: Jöklar, Fjalllendi, Hásléttur, Virk/ung eldfjallasvæði, Undirlendi og inndalir, Firðir og fjarðarheiðar og loks Strandsvæði. Undir þessum sjö flokkum eru síðan skilgreindar 27 landslagsgerðir. Allt landið er kortlagt með tilliti til þessara landslagsgerða. Þannig eru kortlögð alls 117 landslagssvæði og sett fram stutt lýsing á hverju þeirra.
Verkefnið var unnið samhliða mótun tillögu að landsskipulagsstefnu sem nú er í kynningu, þar sem sett er fram stefna um skipulagsgerð með tilliti til landslags (sjá tillögu að landsskipulagsstefnu hér).
Skýrslan felur í sér tímamót í þekkingu og yfirsýn yfir landslag á Íslandi og mun án vafa nýtast vel við skipulagsgerð og umhverfismat.
Skýrslan er aðgengileg hér, en einnig má nálgast landupplýsingagögn hér.