5.6.2019

Afrakstur samráðs um lýsingu fyrir gerð landsskipulagsstefnu

Lýsing fyrir gerð viðauka við Landsskipulagsstefnu 2015-2026 um loftslag, landslag og lýðheilsu var auglýst 16. mars og jafnframt kynnt á kynningar- og samráðsfundum um mótun stefnunnar í mars og apríl. Skipulagsstofnun hefur unnið samantekt þar sem gerð er grein fyrir samráðinu, annarsvegar skriflegum athugasemdum sem bárust á kynningartíma og umsögn Skipulagsstofnunar um þær og hinsvegar þeim áherslum og ábendingum sem fram komu á samráðsfundum.

Afrakstur samráðs um lýsingu fyrir gerð landsskipulagsstefnu

Alls bárust 14 athugasemdir við lýsinguna auk þess sem fjölmargir lögðu fram sín sjónarmið um áherslur og aðgerðir í landsskipulagsstefnu á samráðsfundum. Afraksturinn er fjöldi hugmynda, ábendinga og tillagna sem eru mikilvægt veganesti fyrir næstu skref og verða hafðar til hliðsjónar við þá vinnu sem framundan er við mótun stefnunnar. Skipulagsstofnun þakkar sýndan áhuga á mótun landsskipulagsstefnu.

Næstu skref

Nú tekur við vinna við greiningu forsendna og fyrirmynda sem felur í sér greiningu á stöðu og þróun skipulagsmála út frá ákveðnum umhverfisvísum og greiningu á fyrirliggjandi stefnu stjórnvalda. Einnig verður unnið að greiningarverkefnum um valin viðfangsefni sem stefnunni er ætlað að fjalla um, þar sem áhersla er á að draga fram fyrirliggjandi þekkingu og dæmi um góðar fyrirmyndir. Um er að ræða m.a. verkefni varðandi landslagsgreiningu, vindorku, lýðheilsu og loftslagsaðgerðir í skipulagi þéttbýlis. Áformað er að afurðir vinnunnar liggi fyrir á haustmánuðum og verði ræddar á málstofuröð í tengslum við mótun vinnslutillögu. Nánari upplýsingar um ferlið við mótun stefnunnar má nálgast í lýsingu fyrir gerð landsskipulagsstefnu  og á landsskipulag.is

Vakin er athygli á að ávallt er hægt að koma á framfæri ábendingum við mótun stefnunnar á landsskipulag.is. Einnig geta þau sem áhuga hafa á að fylgjast með starfinu skráð sig á samráðsvettvang.