Um landsskipulagsstefnu

Landsskipulagsstefna felur í sér stefnu ríkisins í skipulagsmálum og almenn sjónarmið til leiðbeiningar við skipulagsgerð sveitarfélaga.

Almennt

Markmið landsskipulagsstefnu er að setja fram leiðarljós um landnotkun, nýtingu lands og landgæða sem tryggir öryggi og heildarhagsmuni við gerð skipulagsáætlana og stuðlar að sjálfbærri þróun og skilvirkri áætlanagerð. Þá er landsskipulagsstefnu ætlað að stuðla að samræmingu í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga um landnotkun og nýtingu lands.

Landsskipulagsstefna tekur mið af fyrirliggjandi stefnumótandi áætlunum opinberra aðila sem varða landnotkun og stöðu ogþróun skipulagsmála í landinu. Hún byggir jafnframt á markmiðum skipulagslaga og stefnu stjórnvalda um sjálfbæra þróun. Þá hefur landsskipulagsstefna eftir því sem við á hliðsjón af svæðis- og aðalskipulagsáætlunum sveitarfélaga.

 

Staða landsskipulagsstefnu

 

Áhrif landsskipulagsstefnu

Samkvæmt reglugerð um landsskipulagsstefnu skulu sveitarfélög taka mið af landsskipulagsstefnu við gerð svæðis- og aðalskipulagsáætlana eða breytinga á þeim og, eftir því sem við á, samræma þær landsskipulagsstefnu innan fjögurra ára frá samþykkt hennar. Í því felst að samræma og útfæra landsskipulagsstefnu í skipulagsáætlunum. Telji sveitarstjórn að ekki beri að taka mið af samþykktri landsskipulagsstefnu við gerð svæðis- og aðalskipulagsáætlana, skal hún gera rökstudda grein fyrir því og skal rökstuðningurinn fylgja með tillögu að skipulagsáætlun þegar hún er send Skipulagsstofnun.

Forsaga landsskipulagsstefnu 

Í september 2010 var samþykkt á Alþingi frumvarp til nýrra skipulagslaga og tóku lögin gildi 1. janúar 2011 og eru nr. 123/2010. Með  lögunum voru í fyrsta skipti hér á landi sett ákvæði um landsskipulag en samkvæmt þeim  leggur umhverfisráðherra fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu til tólf ára innan tveggja ára frá alþingiskosningum. Í tillögunni skal felast endurskoðun á gildandi landsskipulagsstefnu þegar þörf er á ásamt greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála í landinu.

Samkvæmt 4. tl. bráðabrigðaákvæða laganna  skal umhverfisráðherra eigi síðar en árið 2012 leggja fyrir Alþingi í fyrsta sinn tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu, sbr. 10. gr. Þegar landsskipulagsstefna hefur verið samþykkt skal ráðherra fella niður Svæðisskipulag miðhálendis Íslands. Þar til landsskipulagsstefna hefur verið samþykkt skal Skipulagsstofnun gæta þess að aðalskipulag sveitarfélaga sé í samræmi við svæðisskipulag miðhálendis Íslands og þá stefnumörkun sem þar kemur fram. Skipulagsstofnun er heimilt að gera breytingar á svæðisskipulagi miðhálendisins, til samræmis við tillögur að breytingu á aðalskipulagi, þegar breytingin felur ekki í sér nýja stefnumörkun um landnotkun.

Í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 voru ákvæði um áætlanir um landnotkun á landsvísu þar sem Skipulagsstofnun var falið að  afla gagna, hafa aðgang að og varðveita áætlanir annarra opinberra aðila um landnotkun er varða landið allt, svo sem um samgöngur, fjarskipti, orkumannvirki og náttúruvernd. Í aðdraganda samþykktar laganna á Alþingi 1997 var mikið rætt um landsskipulag og gerðar tillögur um hvernig að því skyldi staðið. Ekki náðist samstaða um málið en sem eins konar málamiðlun var niðurstaðan sú að umhverfisráðherra gæti reynt að miðla málum ef í ljós kæmi ósamræmi milli einstakra áætlana. Þá getur umhverfisráðherra, að höfðu samráði við forsætisráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga, ákveðið að skipa sérstaka nefnd til að gera tillögur um samræmingu viðkomandi áætlana. Að fenginni niðurstöðu nefndarinnar getur umhverfisráðherra lagt fyrir sveitarstjórnir að sú niðurstaða verði felld að skipulagsáætlunum. Á þetta ákvæði  reyndi aldrei  og líklega ekki mikill vilji til að fylgja því eftir.

Í landsskipulagsstefnu samkvæmt nýju lögunum eru samþættar áætlanir opinberra aðila um samgöngur, byggðamál, náttúruvernd, orkunýtingu og aðra málaflokka sem varða landnotkun og er hún útfærð með tilliti til skipulags landnotkunar með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.