Endurskoðun landsskipulagsstefnu

Unnið er að endurskoðun gildandi landsskipulagsstefnu í samræmi við 10. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og hyggst innviðaráðherra leggja fram tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu á haustþingi 2023.

Þingsályktunartillaga að landsskipulagsstefnu inniheldur stefnu til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára í samræmi við breytingar sem gerðar voru á umgjörð landsskipulagsstefnu með lögum nr. 30/2023 um stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála.

Landsskipulagsstefna er unnin eftir sporbaugi stefnumótunar stjórnarráðsins sem felst í gerð stöðumats sem kynnt er í grænbók og mótun stefnu sem kynnt er í hvítbók.

Graf_graenbok_hvitbok-01

Grænbók

Í grænbók um skipulagsmál, sem birt var í samráðsgátt stjórnvalda í júlí 2023, var lagður grunnur að endurskoðun landsskipulagsstefnu til næstu ára með greiningu á stöðu skipulagsmála og lykilviðfangsefna stefnunnar auk þess sem sett var fram tillaga að framtíðarsýn og drög að áherslum við endurskoðun landsskipulagsstefnu. Samhliða grænbók voru drög að greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála í landinu kynnt og hún síðan unnin áfram samhliða endurskoðun landsskipulagsstefnu.

Hvítbók

Í hvítbók um landsskipulagsstefnu, sem lýsir drögum að stefnu, eru dregin fram níu lykilviðfangsefni ásamt markmiðum, mælikvörðum og áherslum sem að þeim snúa. Markmiðum og áherslum er síðan fylgt eftir með aðgerðum sem ætlað er að stuðla að framfylgd þeirra. Lykilviðfangsefni hvítbókar nú eru eftirfarandi:

  • Loftslagsbreytingar
  • Jafnvægi í uppbygginu húsnæðis og lífsgæði í byggðu umhverfi
  • Uppbygging þjóðhagslegra innviða
  • Landnotkun í dreifbýli
  • Landnotkun á miðhálendi Íslands
  • Orkuskipti í samgöngum og fjölbreyttir ferðamátar
  • Skipulag haf- og strandsvæða
  • Skipulag vindorku og vernd líffræðilegrar fjölbreytni

Markmið hvítbókar eru þrjú og beinast að vernd umhverfis og náttúru, góðu samfélagi og samkeppnishæfu atvinnulífi og er áherslum þar undir beint að mismunandi svæðum, þ.e. miðhálendi, dreifbýli, þéttbýli og haf- og strandsvæðum. Sú skipting á sér stoð í gildandi stefnu.

Nálgast má hvítbók á samráðsgátt stjórnvalda þar sem almenningi og hagaðilum er boðið að setja fram sín sjónarmið. Að afloknu samráði verður tillaga til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu og aðgerðaáætlun lögð fram á Alþingi.