Ráðgjafarnefnd

Umhverfisráðherra skipar sérstaka ráðgjafarnefnd sem skal vera ráðherra og Skipulagsstofnun til ráðgjafar og samráðs við undirbúning og gerð landsskipulagsstefnu.

Hlutverk ráðgjafarnefndar

Ráðgjafarnefndinni er ætlað samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 1001/2011 að veita faglega ráðgjöf við mótun landsskipulagsstefnu og að koma með tillögur um samþættingu við áætlanir í ólíkum málaflokkum sem varða landnotkun á landsvísu. Komi í ljós verulegt ósamræmi milli áætlana við samþættingu þeirra skal Skipulagsstofnun óska eftir því að ráðgjafarnefndin fjalli sérstaklega um málið.

Ráðgjafarnefndin skal vera Skipulagsstofnun til ráðgjafar við gerð lýsingar landsskipulagsstefnu. Þá skal ráðgjafarnefndin vera Skipulagsstofnun til ráðgjafar um vinnslu landsskipulagsstefnu. Slík ráðgjöf tekur m.a. til áherslna landsskipulagsstefnu, samþættingar ólíkra áætlana, kynningar- og samráðsmála vegna vinnu við landsskipulagsstefnu, umhverfismats og framsetningar landsskipulagsstefnu.

Umhverfisráðherra skal leita álits ráðgjafarnefndarinnar ef hann telur þörf á að breyta tillögu Skipulagsstofnunar að landsskipulagsstefnu.

Ráðgjafarnefnd vegna landsskipulagsstefnu 2015-2026

Umhverfis- og auðlindaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson hefur skipað ráðgjafarnefnd um gerð landsskipulagsstefnu 2015-2026, en nefndin er þannig skipuð:

Sigríður Auður Arnardóttir, formaður ráðgjafarnefndar, umhverfis- og auðlindaráðuneyti
Finnur Kristinsson, landslagsarkitekt, skipaður án tilnefningar
Sigríður Kristjánsdóttir, lektor, tilnefnd af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Helga Barðadóttir, sérfræðingur, tilnefnd af iðnaðar- og viðskiptaráðherra
Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga
Albertína F. Elíasdóttir, skipuð áheyrnarfulltrúi, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga
Ásta Þorleifsdóttir, sérfræðingur, tilnefnd af innanríkisráðuneyti
Héðinn Unnsteinnsson, sérfræðingur, tilnefndur af forsætisráðuneyti.

Ráðgjafarnefndin heldur reglulega fundi meðan á mótun landsskipulagsstefnu stendur. Starfi nefndarinnar lýkur þegar Alþingi hefur samþykkt þingsályktun um landsskipulagsstefnu.