Lífið í landslaginu

Málþing um skipulag og hönnun í landslagi

  • 26.8.2020

Skipulagsstofnun stendur, í samvinnu við Félag íslenskra landslagsarkitekta, fyrir málþingi um landslag og skipulag miðvikudaginn 26. ágúst kl. 9:00-12:00. Málþingið er liður í undirbúningi landsskipulagsstefnu, en Skipulagsstofnun vinnur nú að tillögu til umhverfis- og auðlindaráðherra að viðauka við gildandi landsskipulagsstefnu þar sem sérstaklega verður fjallað um skipulagsgerð með tilliti til landslags. Fyrirhugað var að halda málþingið 30. mars sl. en því var frestað vegna COVID-19 faraldursins.

Málþingið verður haldið í Norræna húsinu og verður því streymt á Facebook-síðu Skipulagsstofnunar. Húsið opnar kl. 8:30 og verður léttur morgunverður á boðstólum. Dagskráin hefst kl. 9:00. 

Lokað hefur verið fyrir skráningu vegna samkomutakmarkana sem nú eru í gildi.

Landslag í landsskipulagsstefnu

Landsskipulagsstefna felur í sér stefnu ríkisins í skipulagsmálum og almenn sjónarmið til leiðbeiningar við skipulagsgerð sveitarfélaga. Í gildandi landsskipulagsstefnu sem samþykkt var á Alþingi 2016 er fjallað með ýmsum hætti um landslag. Þar kemur til að mynda fram stefna um vernd víðerna og landslagsheilda á hálendinu og er áhersla lögð á að mannvirki í dreifbýli falli vel að landslagi. Einnig er þar sett fram markmið um að skipulag og bæjahönnun stuðli að gæðum í hinu byggða umhverfi og að yfirbragð og mælikvarði nýrrar byggðar falli að bæjarmynd viðkomandi staðar.

Í nýjum viðauka við landsskipulagsstefnu verður sjónum sérstaklega beint að skipulagsgerð með tilliti til landslags og verður fjallað jöfnum höndum um landslag í þéttbýli, dreifbýli og óbyggðum. Sett verða fram viðmið fyrir greiningu á óbyggðum víðernum auk þess sem mörkuð verður stefna um skipulag vindorkunýtingar með tilliti til landslags og sett viðmið fyrir ákvarðanir um slíka nýtingu.

Morgunfundaröð um landsskipulagsstefnu

Málþingið er lokaviðburður morgunfundaraðar Skipulagsstofnunar um landsskipulagsstefnu. Áhugasamir eru hvattir til að fylgjast með ferlinu við gerð landsskipulagsstefnu á www.landsskipulag.is.

Dagskrá

I. hluti 9:00-10:55

„Finnst þér ekki Esjan vera sjúkleg?“ Spáð í landslagshugtakið Glærur

Karl Benediktsson, prófessor í landfræði við Háskóla Íslands

Kortlagning landslagsgerða á Íslandi Glærur

Ólafur Árnason, forstöðumaður nýsköpunar og þróunar hjá Skipulagsstofnun

Future applications of Landscape Character Assessment in Planning and Management Examples from the UK Glærur

Paul Macrae og Sam Oxley, landslagsarkitektar hjá LUC (Land Use Consultants) í Bretlandi

Víðerni og vindorka Glærur

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar

Umræður

10:55-11:10 Kaffihlé

II. hluti 11:10-12:00

Hönnum betri hegðun Glærur

Dagný Bjarnadóttir, landslagsarkitekt og eigandi DLD - Dagný Land Design

Almenningsvatn og afskekkt þéttbýli 

Anna María Bogadóttir, arkitekt og eigandi Úrbanistan og lektor við Listaháskóla Íslands

Umræður