Um lands­skipulagsstefnu

Landsskipulagsstefna felur í sér stefnu ríkisins í skipulagsmálum og almenn sjónarmið til leiðbeiningar við skipulagsgerð sveitarfélaga. 

Almennt

Markmið landsskipulagsstefnu er að setja fram leiðarljós um landnotkun, nýtingu lands og landgæða sem tryggir öryggi og heildarhagsmuni við gerð skipulagsáætlana og stuðlar að sjálfbærri þróun og skilvirkri áætlanagerð. Þá er landsskipulags- stefnu ætlað að stuðla að samræmingu í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga um landnotkun og nýtingu lands.

Landsskipulagsstefna tekur mið af fyrirliggjandi stefnumótandi áætlunum opinberra aðila sem varða landnotkun og stöðu ogþróun skipulagsmála í landinu. Hún byggir jafnframt á markmiðum skipulagslaga og stefnu stjórnvalda um sjálfbæra þróun.Þá hefur landsskipulagsstefna eftir því sem við á hliðsjón af svæðis- og aðalskipulagsáætlunum sveitarfélaga.

Staða landsskipulagsstefnu

Áhrif landsskipulagsstefnu

Samkvæmt reglugerð um landsskipulagsstefnu skulu sveitarfélög taka mið af landsskipulagsstefnu við gerð svæðis- og aðalskipulagsáætlana eða breytinga á þeim og, eftir því sem við á, samræma þær landsskipulagsstefnu innan fjögurra ára frá samþykkt hennar. Í því felst að samræma og útfæra landsskipulagsstefnu í skipulagsáætlunum. Telji sveitarstjórn að ekki beri að taka mið af samþykktri landsskipulagsstefnu við gerð svæðis- og aðalskipulagsáætlana, skal hún gera rökstudda grein fyrir því og skal rökstuðningurinn fylgja með tillögu að skipulagsáætlun þegar hún er send Skipulagsstofnun.