Ferli

Ferli landsskipulagsstefnu er mótað í samræmi við reglugerð um landsskipulagsstefnu, en tímaáætlun tekur mið af ákvörðun umhverfisráðherra að leggja fram þingsályktun um landsskipulagsstefnu á vorþingi 2015. 

Helstu áfangar við gerð landsskipulagsstefnu 2015-2026 hafa veið skilgreindir í drögum að verkáætlun.

Skipulagsstofnun mótar landsskipulagsstefnu í virku samráði við sveitarfélög og samtök þeirra, opinberar stofnanir og hagsmunasamtök sbr. 6. gr. reglugerðar um landsskipulagsstefnu. Jafnframt leitast stofnunin við að tryggja að almenningur eigi þess kost að fylgjast með mótun landsskipulagsstefnu og koma á framfæri ábendingum og athugasemdum í vinnuferlinu.


Ákvörðun um áherslur

Umhverfis- og auðlindaráðherra ákveður hverjar áherslur landsskipulagsstefnu eru og setur þær fram áður en vinna við landsskipulagsstefnu hefst. Í landsskipulagsstefnu 2015-2026 verða áherslur fyrri þingsályktunartillögu teknar fyrir að nýju samkvæmt ákvörðun umhverfis- og auðlindaráðherra þ.e. skipulag á miðhálendi Íslands, búsetumynstur –dreifing byggðar, skipulag haf- og strandsvæða. Auk þess verður fjallað um nýtt viðfangsefni „landnotkun í dreifbýli“.

Áherslur fyrir landsskipulagsstefnu 2015-2026.

Gerð lýsingar

Í upphafi vinnu við gerð landsskipulagsstefnu tekur Skipulagsstofnun saman lýsingu á vinnunni framundan í samráði við ráðgjafanefnd. Í lýsingu er gerð grein fyrir hvernig vinnu við landsskipulagsstefnu verður háttað svo sem hvaða áherslur eru settar, hvaða forsendur liggja til grundvallar og hvernig kynningu og samþráði verður háttað. Jafnframt er gerð grein fyrir því hvernig landsskipulagsstefna verður mótuð og hvernig staðið verði að umhverfismati.

Kynning lýsingar

Lýsing landsskipulagsstefnu er kynnt samráðsvettvangi og er þátttakendum gefin kostur á að gefa álit sitt. Einnig er lýsing kynnt með auglýsingu í blöðum sem vísar á heimasíðu Skipulagsstofnunar og gefur almenningi kost á að gera athugasemdir eða koma með ábendingar við lýsinguna. Athugasemdir og ábendingar þurfa að berast innan þriggja vikna frá birtingu auglýsingar.

Sá þáttur lýsingar sem snýr að umfangi og nákvæmni umhverfismats landsskipulagsstefnu er kynntur umhverfisráðuneyti og Umhverfisstofnun sérstaklega, sbr.  ákvæði um landsskipulagsstefnu. Umhverfisráðuneyti og Umhverfisstofnun taka við hlutverki Skipulagsstofnunar um samráð um umfang og áherslur í umhverfismati.

Að kynningartíma loknum birtir Skipulagsstofnun yfirlit yfir ábendingar og athugasemdir við lýsinguna og gerir jafnframt grein fyrir því hvernig fyrirhugað er að vinna úr þeim við frekari mótun landsskipulagsstefnunnar. Þar er jafnframt gerð grein fyrir umsögn stofnunarinnar um athugasemdir.

Mótun tillögu

Skipulagsstofnun mótar tillögu að landsskipulagsstefnu og er ráðgjafanefnd stofnuninni til ráðgjafar og samráðs í þeirri vinnu. Tillagan er einnig mótuð í samráði við sveitarfélög og samtök þeirra, opinberar stofnanir og hagsmunasamtök m.a. gegnum samráðsvettvang. Almenningi gefst kostur á að taka þátt í að móta tillögu með því að koma á framfæri áliti og athugasemdum í gegnum samráðsvettvang og formlegt auglýsingarferli.

Til grundvallar tillögu að landsskipulagsstefnu liggja ákveðnar forsendur þ.m.t. greining á stefnu ríkisins og á stöðu og þróun skipulagsmála, sviðsmyndagreining og umhverfismat (auk athugasemda frá samráðsvettvangi og almenningi).

Auglýsing tillögu

Þegar endanleg tillaga Skipulagsstofnunar að landsskipulagsstefnu liggur fyrir er tillagan ásamt umhverfismati kynnt opinberlega. Áður en tillagan er auglýst skal Skipulagsstofnun hafa kynnt hana ráðgjafanefnd og samráðsvettvangi. Allir geta gert athugasemd við tillöguna innan auglýsts athugasemdafrests.

Skipulagsstofnun fjallar um þær umsagnir og athugsemdir sem berast á kynningartíma og tekur saman umsöng um hvernig tekið hefur verið tillit til þeirra. Stofnunin gerir umsagnaraðilum grein fyrir umsögn sinni.

Undirbúningur og afgreiðsla þingsályktunar

Umhverfisráðherra fær tillögu að landsskipulagsstefnu afhenda eftir að athugasemdaferli líkur sem hann tekur til skoðunar og gengur frá tillögu til þingsályktunar að höfðu samráði við Samband Íslenskra sveitarfélaga og ráðgjafanefnd.

Ráðherra leggur fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi en landsskipulagsstefna tekur gildi þegar Alþingi hefur fjallað um tillöguna og samþykkt hana.