Um faghópa Skipulagsstofnunar

Verkefni faghópa er að greina valkosti og umhverfisáhrif landsskipulagsstefnu.

Til að styrkja starf Skipulagsstofnunar við mótun Landsskipulagsstefnu 2015-2026 hafa verið settir á stofn fjórir faghópar. Verkefni þeirra er að greina valkosti og umhverfisáhrif landsskipulagsstefnu með aðferðum sviðsmyndagreiningar. 

Hver faghópur mun vinna með eitt af þeim fjórum viðfangsefnum sem ráðherra hefur ákveðið að landsskipulagsstefna skuli fjalla um að þessu sinni, það er miðhálendið, búsetumynstur, haf- og strandsvæði og dreifbýlið. Faghóparnir munu fjalla um viðfangsefni sín út frá fjórum málaflokkum, byggð og samfélag, umhverfi og náttúra, atvinna og orka og samgöngur og fjarskipti.  

Í hverjum faghópi eiga sæti 7-8 sérfræðingar, annarsvegar frá Skipulagsstofnun og hinsvegar aðrir sérfræðingar sem leitað hefur verið til vegna þekkingar þeirra og reynslu. Markmiðið er að hver faghópur hafi á að skipa almennri og víðtækri þekkingu á viðfangsefni faghópsins, sem gefi góðan grundvöll til greiningar valkosta og umhverfismats. Með hverjum faghópi starfar jafnframt ráðgjafi sem sinnir verkefnisstjórn. 

Starf faghópa mun fyrst og fremst fara fram á tímabilinu mars til maí 2014. Afrakstur faghópanna verður tekin saman í greinargerð sem áformað er að kynna fyrir samráðsvettvangi í júní 2014.

Listi yfir aðila í faghópum