Landsskipulagsstefna 2015-2026

1. Skipulag á miðhálendi Íslands

Staðinn verði vörður um náttúru og landslag miðhálendisins vegna náttúruverndargildis og mikilvægis fyrir útivist. Uppbygging innviða á miðhálendinu taki mið af sérstöðu þess.1.1 Víðerni og náttúrugæði.

Viðhaldið verði sérkennum og náttúrugæðum miðhálendisins með áherslu á verndun víðerna hálendisins, landslagsheilda, mikilvægra vistgerða og gróðurlenda og verðmætra menningarminja.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:

1.1.1 Skipulagsákvæði um náttúru og víðerni.

Sveitarfélög á miðhálendinu útfæri landsskipulagsstefnu um verndun víðerna- og náttúrugæða í skipulagsáætlunum sínum. Við skipulagsgerð sveitarfélaga verði þess gætt að mannvirki og umferð um hálendið skerði víðerni og önnur sérkenni og náttúrugæði hálendisins sem minnst. Jafnframt verði kannaðir möguleikar á endurheimt víðerna og náttúrugæða. Til grundvallar stefnumörkun verði lögð kortlagning á umfangi víðerna, vistgerðakort Náttúrufræðistofnunar Íslands og svæði sem njóta verndar vegna náttúrufars. Á svæðum sem flokkast sem víðerni verði svigrúm fyrir takmarkaða mannvirkjagerð, svo sem gönguskála, vegslóða og göngu- og reiðleiðir. Umfangsmeiri mannvirkjagerð verði beint að stöðum sem rýra ekki víðerni hálendisins.

1.1.2 Sjálfbær gróðurframvinda.

Áhersla landsskipulagsstefnu á sjálfbæra gróðurframvindu á miðhálendinu verði m.a. útfærð með ákvæðum í aðalskipulagi um beitarsvæði í samráði við bændur og Landgræðslu ríkisins. Þau miði að því að beitarálag sé í samræmi við ástand vistkerfa og markmið um að endurheimta og styrkja náttúruleg vistkerfi og stöðva jarðvegseyðingu. Með þeim verði stuðlað að því að beit á miðhálendinu verði stjórnað þannig að landnýting verði sjálfbær, valdi ekki gróður- eða jarðvegseyðingu eða hamli náttúrulegri framvindu vistkerfa á illa förnu landi. Einnig verði, eftir því sem við á, sett ákvæði í aðalskipulagi um landgræðslu og landgræðslusvæði til að bregðast við rofskemmdum. Skipulagsákvarðanir um beit og landgræðslu byggist á áætlunum um uppgræðslu lands.

1.1.3 Hverfisverndun víðerna og viðkvæmra svæða.

Stefna um verndun víðerna og náttúrugæða hálendisins verði eftir því sem við á útfærð með hverfisvernd í skipulagsáætlunum sveitarfélaga, m.a. þannig að í aðalskipulagi verði þau svæði hverfisvernduð sem tilgreind eru í verndarflokki áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða og náttúruverndaráætlun. Þá verði hverfisvernd eftir aðstæðum nýtt til að vernda land sem er talið viðkvæmt fyrir búfjárbeit.

Önnur verkefni stjórnvalda:

1.1.4 Kortlagning víðerna.

Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun hafi forgöngu um að reglulega liggi fyrir uppfærð kort af umfangi og þróun víðerna á miðhálendinu. Í því felst að ákveða viðmið fyrir mat á umfangi víðerna út frá skipulagssjónarmiðum og að hafa kort sem uppfærð eru reglulega um umfang víðerna aðgengileg fyrir skipulagsvinnu sveitarfélaga og annarra aðila.

1.1.5 Umhverfismat.

Við umhverfismat áætlana og framkvæmda á miðhálendinu verði lagt mat á áhrif áætlunar og framkvæmdar á víðerni og hve mikil rýrnun, eða eftir atvikum endurheimt, verður á víðernum.

1.2 Ferðaþjónusta í sátt við náttúru og umhverfi.

Uppbygging ferðamannaaðstöðu stuðli að góðri aðstöðu ferðafólks á miðhálendinu, en jafnframt verði gætt að því að óbyggðaupplifun og náttúrugæði skerðist sem minnst vegna mannvirkja og umferðar.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:

1.2.1 Skipulag áfangastaða ferðamanna.

Uppbygging ferðamannaaðstöðu verði takmörkuð á miðhálendinu og megináhersla lögð á uppbyggingu á jaðarsvæðum hálendisins og á nokkrum afmörkuðum svæðum við aðalvegi hálendisins. Gengið verði út frá eftirfarandi flokkun og staðsetningu þjónustustaða:

  • Jaðarmiðstöðvar séu á tilteknum stöðum við meginleiðir inn á hálendið og í jaðri þess. 
  • Hálendismiðstöðvar séu á tilteknum stöðum við meginleiðir um hálendið. 
  • Skálasvæði séu á tilteknum stöðum í góðu vegasambandi. 
  • Fjallasel séu í takmörkuðu vegasambandi og taki mið af hæfilegum dagleiðum göngufólks. 

Við skipulagsgerð verði stuðlað að því að ferðafólki um miðhálendið standi til boða viðeigandi mannvirki og þjónusta og að ferðafólk dreifist þannig að álag á náttúru sé í samræmi við þol hennar. Við alla mannvirkjahönnun og framkvæmdir á hálendinu verði jafnframt lögð áhersla á að virðing sé borin fyrir náttúrulegu landslagi og viðhöfð sérstök aðgæsla sem tryggi að mannvirki falli sem best að umhverfi og rýri sem minnst hlut náttúrunnar í heildarmyndinni.

Önnur verkefni stjórnvalda:

1.2.2 Kortlagning mannvirkja og þjónustu.

Skipulagsstofnun í samvinnu við Þjóðskrá Íslands og sveitarfélög á hálendinu hafi for
göngu um skráningu mannvirkja og þjónustu á hálendinu.

1.2.3 Mat á þörf fyrir uppbyggingu ferðaþjónustumannvirkja.

Skipulagsstofnun, í samvinnu við Ferðamálastofu, Samband íslenskra sveitarfélaga og
sveitarfélög á hálendinu, safni upplýsingum um þörf fyrir breyttar áherslur í mannvirkjagerð fyrir næstu endurskoðun landsskipulagsstefnu, m.a. með hliðsjón af ferðamálastefnu og staðbundinni greiningu og stefnumótun á einstökum svæðum innan miðhálendisins. Haft verði samráð við hlutaðeigandi stofnanir og hagsmunaaðila.

1.3 Samgöngur í sátt við náttúru og umhverfi

Viðhald og frekari uppbygging samgöngukerfis á miðhálendinu stuðli að góðu aðgengi að hálendinu og jafnvægi milli ólíkra ferðamáta. Mannvirki og umferð hafi lágmarksáhrif á víðerni og óbyggðaupplifun.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:

1.3.1 Skipulag samgangna.

Sveitarfélög á miðhálendinu geri grein fyrir og marki stefnu um þjóðvegi, þ.e. stofnvegi og landsvegi, í aðalskipulagi í samráði við Vegagerðina. Jafnframt geri þau grein fyrir og marki stefnu um aðra vegi en þjóðvegi á miðhálendinu í aðalskipulagi í samræmi við lög um náttúruvernd. Skipulagsákvæði um vegi á miðhálendinu feli í sér að vegaframkvæmdum verði haldið í lágmarki, möskvar vegakerfisins verði sem stærstir og að hönnun allra vega taki mið af náttúruvernd, sérstaklega með tilliti til landslags, víðerna og verndar viðkvæmra svæða. Við skipulagsgerð sveitarfélaga verði jafnframt leitað jafnvægis varðandi aðgengi að áhugaverðum stöðum með mismunandi ferðamátum þannig að ferðafólki á vélknúnum farartækjum sé tryggður aðgangur að fjölbreyttum svæðum en jafnframt verði tryggð kyrrlát svæði án umferðar vélknúinna farartækja. Ferðamannaleiðir (gönguleiðir, reiðleiðir og reiðhjólaleiðir) verði eftir því sem kostur er aðskildar frá meginvegakerfi miðhálendisins. Þá verði í skipulagsáætlunum sveitarfélaga jafnframt tekin afstaða til þess hvar gera megi ráð fyrir lendingarstöðum þyrla og flugvéla og eftir atvikum afmörkuð kyrrlát svæði án umferðar vélknúinna farartækja á lofti og landi.

Önnur verkefni stjórnvalda:

1.3.2 Skrá yfir aðra vegi en þjóðvegi í náttúru Íslands.

Á hverjum tíma skal Vegagerðin veita aðgang að skrá í stafrænum kortagrunni um vegi aðra en þjóðvegi í náttúru Íslands. Í samræmi við lög um náttúruvernd skal hún byggð á tillögum sveitarfélaga og samráð haft við einstakar stofnanir eða samþykkis þeirra aflað þegar um er að ræða friðlýst svæði og þjóðgarða. 

1.3.3 Nánari stefnumótun um vegakerfi miðhálendisins.

Við endurskoðun landsskipulagsstefnu og samgönguáætlunar vinni skipulags- og samgönguyfirvöld með hlutaðeigandi stofnunum og hagsmunaaðilum að nánari greiningu á kostum varðandi þróun sam·göngukerfis og útfærslu vega á miðhálendinu. Þar verði m.a. metið ástand vega og sú stefna sem sett var um sam­göngukerfi á hálendinu með svæðisskipulagi miðhálendisins. Einnig verði höfð hliðsjón af afrakstri vinnu sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra setti af stað haustið 2014 við mótun stefnu og framtíðarsýnar fyrir ferðaþjónustu á Íslandi.

1.4 Sjálfbær nýting orkulinda.

Orkulindir á miðhálendinu verði nýttar með sjálfbærni og umhverfisvernd að leiðarljósi, sérstaklega með tilliti til verndunar víðerna.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:

1.4.1 Orkunýting í skipulagsáætlunum.

Skipulagsákvarðanir um landnýtingu og mannvirkjagerð vegna orkuvinnslu og orkuflutnings taki mið af áherslu landsskipulagsstefnu á sjálfbæra nýtingu orkulinda og verndun víðerna og náttúru miðhálendisins. Meiri háttar mannvirkjagerð verði beint að stöðum sem rýra ekki víðerni eða landslagsheildir hálendisins.

Önnur verkefni stjórnvalda:

1.4.2 Umhverfismat virkjunarkosta.

Við umhverfismat verndar- og orkunýtingaráætlunar verði metin samlegðaráhrif virkjunarkosta á víðerni og náttúru hálendisins. Lagt verði mat á áhrif orkuflutningsmannvirkja og samlegðaráhrif nýrra virkjunarkosta og annarra mannvirkja sem fyrir eru eða þegar ákveðin.

1.4.3 Umhverfismat orkuflutningskosta.

Við umhverfismat kerfisáætlunar verði lagt mat á áhrif mismunandi kosta varðandi legu og útfærslu orkuflutningsmannvirkja á víðerni og náttúru hálendisins. Á miðhálendinu taki slíkt um
hverfismat til kosta sem felast í lagningu jarðstrengja auk loftlína.

1.5 Trygg fjarskipti í sátt við náttúru og umhverfi.

Skipulag gefi kost á uppbyggingu fjarskiptamannvirkja til að tryggja örugg fjarskipti, um leið og gætt verði að áhrifum á náttúru og landslag.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:

1.5.1 Fjarskipti í skipulagsáætlunum.

Skipulagsákvarðanir um fjarskiptamannvirki geri kleift að byggja upp traust fjarskiptakerfi og taki mið af landsskipulagsstefnu um víðerni og náttúru miðhálendisins.

1.6 Skipulag með tilliti til náttúruvár.

Við skipulagsgerð á miðhálendinu verði tekið tillit til öryggis vegna náttúruvár.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:

1.6.1 Skipulag með tilliti til náttúruvár.

Við ákvarðanir um mannvirkjagerð á miðhálendinu verði tekið tillit til hættu sem talin er stafa af náttúruvá, svo sem snjóflóðum, skriðuföllum, vatnsflóðum, eldgosum, jökulhlaupum og jarðskjálftum.