Landsskipulagsstefna 2015-2026

4. Skipulag á haf- og strandsvæðum

Skipulag haf- og strandsvæða veiti grundvöll fyrir fjölbreyttri nýtingu á haf- og strandsvæðum um leið og viðhaldið verði mikilvægum auðlindum hafsvæða við Ísland.4.1 Sjálfbær nýt­ing auðlinda

Skipulag nýtingar á haf- og strandsvæðum grundvallist á heildarsýn á málefni hafsins þar sem viðhaldið verði heilbrigði, líffræðilegri fjölbreytni og framleiðslugetu hafsins. Skipulagsákvarðanir um staðbundna nýtingu á haf- og strandsvæðum byggist á vistkerfisnálgun og stuðli þannig að viðhaldi vistkerfa og sjálfbærri nýtingu auðlinda.

4.1.1 Öflun upplýsinga um vernd og nýtingu.

Skipulagsstofnun vinni að landfræðilegum gagnagrunni/vefgátt í samráði við hlutaðeigandi stofnanir sem hafi að geyma upplýsingar um siglingaleiðir, verndarsvæði og starfsemi á haf- og strandsvæðum.

4.1.2 Stefnumótun.

Þegar löggjöf um skipulagsmál haf- og strandsvæða hefur tekið gildi verði mörkuð nánari stefna um skipulagsmál haf- og strandsvæða í samræmi við þá umgjörð og fyrirmæli sem þar verða sett.

4.2 Skýr og skil­virk stjórnsýsla skipu­lags­mála.

Stjórnsýsla skipulagsmála á haf- og strandsvæðum verði skýr og samræmd. Aðkoma ólíkra stjórnvalda og hagsmunaaðila að skipulagsvinnunni verði tryggð og leitast við að koma í veg fyrir árekstra ólíkrar nýtingar og verndarsjónarmiða.

4.2.1 Stjórnsýsla.

Með nýrri löggjöf um skipulagsmál á haf- og strandsvæðum verði ákveðið hvernig stjórnsýslu skipulagsmála á haf- og strandsvæðum skuli háttað.

4.2.2 Kynning fyrir nágrannaríkjum.

Tryggt verði að áform á íslenska hafsvæðinu sem líkleg eru til að hafa um­hverfisáhrif út fyrir efnahagslögsögu Íslands fái viðeigandi kynningu fyrir viðkomandi nágrannaríki samkvæmt lögum um um­hverfismat áætlana og mat á um­hverfisáhrifum framkvæmda.

4.2.3 Skilgreining á strandlínu.

Landmælingar Íslands, í samráði við hlutaðeigandi stofnanir, vinni að því að skilgreina strandlínu, eða núll-hæðarlínu, við þéttbýli og önnur byggð svæði þar sem hætta stafar af sjávarflóðum og vegna breytinga á sjávarborði í kjölfar loftslagsbreytinga.

4.2.4 Endurskoðun landnotkunarflokka á hafnar- og iðnaðarsvæðum.

Skipulagsstofnun í samráði við Hafnasamband Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga vinni að endurskoðun á skilgreiningu landnotkunarflokka í skipulagsreglugerð vegna hafnar- og iðnaðarsvæða utan þéttbýlis þannig að ákvæði taki betur mið af eðli og umfangi starfsemi á slíkum svæðum.

4.3 Svæðisbundin skipulagsgerð.

Komið verði á fót svæðisbundinni skipulagsgerð fyrir haf- og strandsvæði næst landi sem veiti grundvöll fyrir nýtingu haf- og strandsvæða, taki mið af mismunandi hagsmunum og samþættingu nýtingar og verndar við ströndina, þar sem gæta þarf samræmis milli skipulags á landi og hafi.

4.3.1 Svæðisbundin skipulagsgerð.

Þegar umgjörð svæðisbundinnar skipulagsgerðar hefur verið ákveðin í lögum verði þegar hafist handa við skipulagsvinnu á þeim svæðum þar sem hún er mest aðkallandi vegna samræmingar staðbundinnar nýtingar mismunandi atvinnustarfsemi og frístundaiðju, sam­gönguleiða og verndarsjónarmiða. Slík svæðisbundin skipulagsgerð greini núverandi nýtingu og fyrirliggjandi ákvarðanir um nýtingu og setji fram stefnu um sjálfbæra nýtingu og staðbundin skipulagsákvæði, eftir því sem við á, um framtíðarnýtingu og verndun. Þannig verði tekið saman landfræðilegt yfirlit og mörkuð stefna um svæðisnýtingu til sjávareldis, orkuvinnslu, frístunda og ferðaþjónustu, efnistöku, samgangna og veitna og vernd náttúru og menningarminja.