Landsskipulagsstefna 2015-2026

3. Búsetumynstur og dreifing byggðar

Þróun þéttbýlis og fyrirkomulag byggðar stuðli að sjálfbærni með áherslu á gæði í hinu byggða umhverfi og markvissu og samþættu skipulagi byggðar og samgangna.3.1 Heildstætt búsetumynstur og jafnvægi í byggðaþróun.

Skipulag byggðar og þróun þéttbýlis stuðli að samkeppnishæfni og þoli samfélags í einstökum landshlutum og á landinu í heild.

Skipulagsgerð sveitarfélaga og sóknaráætlanir landshluta:

3.1.1 Skilgreining meginkjarna.

Við skipulagsgerð sveitarfélaga og gerð sóknaráætlana landshluta verði skilgreindir meginkjarnar í hverjum landshluta og vinnusóknar- og þjónustusvæði þeirra. Uppbyggingu, þar á meðal samgangna, verði hagað þannig að hún sé til þess fallin að styrkja kjarnana sem sjálfbæra burðarása viðkomandi nærsamfélags.

Önnur verkefni stjórnvalda:

3.1.2 Greining vinnusóknar- og þjónustusvæða.

Skipulagsstofnun, í samstarfi við Byggðastofnun, innanríkisráðuneytið, Vegagerðina, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgar­svæðinu, vinni að samræmdri greiningu á vinnusóknar- og þjónustusvæðum stærstu þéttbýlisstaða og kortlagningu virkra borgarsvæða.

3.2 Sjálfbært skipulag þéttbýlis.

Skipulag byggðar stuðli að sjálfbærri þróun þéttbýlisstaða með þéttri, samfelldri byggð, endurskipulagningu vannýttra svæða og eflingu nærsamfélags. Uppbygging íbúðar- og atvinnuhúsnæðis verði í samræmi við þarfir samfélagsins á hverjum tíma og til framtíðar.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:

3.2.1 Vöxtur þéttbýlisstaða.

Sveitarfélög skilgreini í aðalskipulagi vaxtarmörk þéttbýlisstaða með það fyrir augum að efla viðkomandi þéttbýlisstað og standa vörð um verðmæt náttúrusvæði og landbúnaðarland. Skýr skil verði milli þéttbýlis og dreifbýlis. Almennt verði haft að leiðarljósi að þétta byggð og blanda atvinnustarfsemi, verslun og þjónustu, og tengja við íbúðarbyggð í þágu sjálfbærni daglegs lífs og aukinna lífsgæða.

3.2.2 Hagkvæm uppbygging.

Í skipulagsáætlunum sveitarfélaga verði mörkuð stefna um uppbyggingu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis sem taki mið af fyrirsjáanlegum þörfum samfélagsins og lýðfræðilegum breytingum til framtíðar. Stuðlað verði að fjölbreyttum húsnæðiskostum, svo sem hvað varðar húsagerðir og stærðir. Tryggt verði fjölbreytt og sveigjanlegt húsnæði sem stuðli að félagslegri fjölbreytni og í því samhengi verði hugað sérstaklega að framboði á húsnæði fyrir alla tekjuhópa.

Önnur verkefni stjórnvalda:

3.2.3 Upplýsingar um húsnæðismál.

Þjóðskrá Íslands, í samstarfi við Skipulagsstofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök sveitarfélaga á höfuð­borgar­svæðinu, vinni að úrbótum í skráningu, miðlun og greiningu upplýsinga um húsnæðismál með tilliti til skipulagsákvarðana.

3.3 Gæði hins byggða umhverfis.

Skipulag byggðar og bæjahönnun stuðli að gæðum í hinu byggða umhverfi og að yfirbragð og mælikvarði nýrrar byggðar falli að bæjarmynd viðkomandi staðar og sögulegri byggð. Jafnframt verði stuðlað að heilnæmu umhverfi sem veiti góð skilyrði til búsetu og möguleika til fjölbreyttrar útiveru.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:

3.3.1 Gæði byggðar og bæjarrýma.

Við skipulagsgerð sveitarfélaga verði sérstaklega hugað að gæðum hins byggða um­hverfis og sett fram stefna og ákvæði um mælikvarða byggðar, byggðamynstur og samspil byggðar, bæjarrýma og ferðamáta. Einnig verði sérstaklega hugað að almenningsrýmum og útivistarsvæðum með það að markmiði að hvetja til útiveru og hreyfingar, matjurtaræktunar og náttúruupplifunar og varðveita verðmæt náttúrusvæði. Jafnframt verði tekið tillit til sögulegs samhengis í þróun byggðar og menningararfurinn nýttur til að styrkja sérkenni og staðaranda.

3.3.2 Heilnæmt umhverfi.

Við skipulagsgerð sveitarfélaga verði stuðlað að heilnæmi um­hverfis með viðeigandi ráðstöfunum varðandi vatnsvernd, vatn­sveitu, fráveitu, úrgangsmeðhöndlun, hljóðvist og loftgæði. Sérstaklega verði hugað að um­hverfisvænum lausnum þar sem það á við, svo sem varðandi möguleika til flokkunar og endurvinnslu, sjálfbærar ofan­vatnslausnir og aukna nýtni við auðlindanotkun.

3.4 Samkeppnishæf samfélög og atvinnulíf.

Skipulag byggðar og landnotkunar stuðli að samkeppnishæfni og eflingu samfélags og atvinnulífs.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:

3.4.1 Öflugir innviðir.

Skipulagsgerð sveitarfélaga stuðli að uppbyggingu atvinnulífs til framtíðar, með áherslu á gæði í hinu byggða um­hverfi og öflugum innviðum. Sérstaklega verði hugað að fjölbreytni atvinnulífs með tilliti til þols gagnvart samfélags- og um­hverfisbreytingum. Skipulagsákvarðanir um raforkuflutningsmannvirki geri kleift að tryggja örugga afhendingu raforku, um leið og tekið er tillit til áhrifa á landslag og aðra landnotkun.

3.5 Sjálfbærar samgöngur.

Skipulag byggðar og landnotkunar feli í sér samþætta stefnu um byggð og sam­göngur með áherslu á greiðar, öruggar og vistvænar sam­göngur og fjölbreytta ferðamáta.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:

3.5.1 Samgöngur innan vinnusóknarsvæða.

Skipulagsgerð sveitarfélaga stuðli að greiðum sam­göngum innan skilgreindra vinnusóknar- og þjónustusvæða, með styrkingu byggðar að leiðarljósi. Við skipulag byggðar og samgangna verði miðað við að sem flestir íbúar komist til næsta meginkjarna á innan við einni klukkustund. Skipulag feli einnig í sér stefnu um almennings­sam­göngur. Jafnframt verði mótuð stefna um tengingar milli helstu meginkjarna í samræmi við sam­gönguáætlun.

3.5.2 Samgöngur í þéttbýli.

Sveitarfélög marki í skipulagi samþætta stefnu um byggð og sam­göngur. Áhersla verði lögð á göngu- og hjólavænt um­hverfi og að tvinna saman almennings­sam­göngur og byggðaskipulag. Gatnaskipulag og gatnahönnun miði að því að skapa bæjarrými og umferðarrými fyrir akandi, hjólandi og gangandi vegfarendur.

Önnur verkefni stjórnvalda:

3.5.3 Úrlausn ágreiningsmála um innviði.

Í þeim tilvikum þegar staðfestingu aðalskipulags hefur verið frestað vegna ágreinings um uppbyggingu og legu sam­göngu- eða veitumannvirkja getur um­hverfis- og auðlindaráðherra að beiðni viðkomandi sveitarfélags og í samvinnu við hlutaðeigandi ráðherra haft for­göngu um að settur verði á laggirnar samráðshópur til að leita sátta um lausn.

3.5.4 Sjálfbærar samgöngur í samgönguáætlun.

Við mótun sam­gönguáætlunar verði tekið mið af áherslum landsskipulagsstefnu varðandi sjálfbærar sam­göngur í þéttbýli.

3.6 Trygg fjarskipti í sátt við umhverfið.

Skipulag gefi kost á uppbyggingu fjarskiptamannvirkja til að tryggja örugg fjarskipti, um leið og gætt verði að umhverfisáhrifum.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:

3.6.1 Fjarskipti í skipulagsáætlunum.

Skipulagsákvarðanir um fjarskiptamannvirki geri kleift að byggja upp traust fjarskiptakerfi, en taki jafnframt tillit til umhverfisáhrifa.

Önnur verkefni stjórnvalda:

3.6.2 Mælikvarðar fyrir fjarskipti.

Póst- og fjarskiptastofnun hafi forgöngu um gerð mælikvarða á sviði fjarskiptamála fyrir skipulagsgerð.

3.7 Náttúruvá og loftslagsbreytingar.

Við skipulag byggðar verði tekið tillit til náttúruvár og loftslagsbreytinga.

Skipulagsgerð sveitarfélaga:

3.7.1 Skipulag með tilliti til náttúruvár og umhverfisbreytinga.

Við skipulagsgerð sveitarfélaga verði hugað að því hvernig megi með skipulagsaðgerðum draga úr losun gróðurhúsaloftteg­unda. Jafnframt verði tekið tillit til áhrifa loftslagsbreytinga, svo sem vegna hækkunar sjávarborðs, og náttúruvár, svo sem snjóflóða, skriðufalla, vatnsflóða, eldgosa, jökulhlaupa og jarðskjálfta, með það að markmiði að varna slysum á fólki og tjóni á mannvirkjum. Upplýsingar Veðurstofu Íslands um náttúruvá og loftslagsbreytingar verði lagðar til grundvallar skipulagsákvörðunum.