Forsendur

Áherslur umhverfis- og auðlindaráðherra

Umhverfis- og auðlindaráðherra ákveður hverjar áherslur landsskipulagsstefnu eru og setur þær fram áður en vinna við landsskipulagsstefnu hefst.

Í landsskipulagsstefnu 2015-2026 verða áherslur fyrri þingsályktunartillögu teknar fyrir að nýju samkvæmt ákvörðun umhverfis- og auðlindaráðherra þ.e. skipulag á miðhálendi Íslands, búsetumynstur og dreifing byggðar, skipulag haf- og strandsvæða. Auk þess verður fjallað um nýtt viðfangsefni „landnotkun í dreifbýli“.

Bréf umhverfis- og auðlindaráðherra til Skipulagsstofnunar um gerð landsskipulagsstefnu 2015-2026.

Skipulag á miðhálendi Íslands

Samkvæmt skipulagslögum skal landskipulagsstefna ávallt marka stefnu um skipulagsmál á miðháheldi Íslands. Mikilvægt er að endurskoða fyrirliggjandi stefnumörkun um skipulagsmál miðhálendisins m.a. með hliðsjón af reynslu af núgildandi svæðisskipulagi miðhálendisins sem staðfest var 1999, nýrri þekkingu á náttúrufari hálendisins, nýjum áskorunum og þeim áætlunum stjórnvalda sem samþykktar hafa verið síðan svæðisskipulagið var unnið og varða landnotkun á svæðinu. 

Mikilvægir þættir varðandi stefnumörkun um skipulagsmál á miðhálendinu eru orkunýting og orkuflutningar, samgöngur, ferðaþjónusta, vernd náttúru og meninningarminjar sem og samspil þessara þátta. Standa þarf vörð um náttúru og landslag hálendisins vegna beins náttúruverndargildis þess en einnig vegna þess gildis sem það hefur sem undirstaða ferðaþjónustu og útivistar. Í tillögu að stefnu um skipulagsmál á miðhálendinu skal setja fram samræmda stefnu um landnotkun með tilliti til framangreindra þátta þar sem byggt er á fyrirliggjandi áætlunum stjórnvalda sem varða landnotkun á miðhálendinu, svo sem náttúruverndaráætlun, ferðamálaáætlun, samgönguáætlun og verndar- og orkunýtingaráætlun. 

Við gerð tillögunnar skal einnig hugað að frekari vernd landslags, landlagsheilda, víðerna og jarðvegs, meðal annars með hliðsjón af evrópska landslagssamningum og þeim áskorunum sem felast í auknum straumi ferðamana til landsins. Þá skal sérstaklega fjalla um og setja fram tillögu að stefnu um samgöngumál og vegakerfi á miðhálendinu.

Búsetumynstur – dreifing byggðar

Eitt af stærstu viðfangsefnum skipulags landnotkunar er ákvörðun um þróun þéttbýlis og fyrirkomulag byggðar. Byggðamynstur og dreifing byggðar nótar ramma um daglegt líf fólks og getur haft veigamikil áhrif á sjálfbærni þegar til langs tíma er litið. Í tillögu að landsskipulagsstefnu verði sett fram almenn stefna til leiðbeiningar fyrir skipulagsgerð sveitarfélaga um þá þætti byggðamynsturs, svo sem þéttleika byggðar, dreifingu búsetu, tegund landnotkunar, samgöngur, skipulag verslunar- og þjónustu og önnur atriði sem stuðla geta að aukinni sjálfbærni byggðar, þ.e. samþættingu umhverfis og félagslegra og efnahagslegra þátta í hinu byggða umhverfi.

Skipulag haf- og strandsvæða

Hafsvæðin við Ísland búa yfir mikilvægum auðlindum sem viðhalda þarf á grundvelli heilbrigðis, líffræðilegs fjölbreytileika og sjálfbærni hafsins. Vaxandi eftirspurn er eftir fjölbreyttari nýtingu á haf- og strandsvæðum þar sem ólíkir hagsmunir geta stangast á. Þetta á meðal annars við á strandsvæðum þar sem hentug skilyrði eru fyrir atvinnustarfsemi eins og fiskeldi. Landsskipulagsstefna skal setja fram heildstæða sýn um skipulagsmál hafsins og um það á hvaða svæðum brýnt er að vinna nánari skipulagsáætlanir um skipulag haf- og strandsvæða.

Skipulag landnotkunar í dreifbýli

Í skipulagsáætlunum sveitarfélaga er mörkuð stefna um nýtingu lands, jafnt í þéttbýli og dreifbýli. Til grundvallar skipulagsgerð sveitarfélag skal leggja sjónarmið um sjálfbæra þróun, sambanber markmið skipulagslaga. Á undarförnum áratugum hafa orðið talsverðar breytingar á landnotkun í dreifbýli, samhliða breytingum í landbúnaði. Aukin áhersla er á skógrækt og akuryrkju, m.a. samhliða aukinni þekkingu og hlýnandi veðurfari. Þessu til viðbótar hefur uppbygging ferðaþjónustu í dreifbýli aukist, auk almennt aukinnar útivistar. Þessar breytingar á landnotkun hafa í för með sér nýtt og aukið álag á náttúruna og vistkerfi landsins. Það eru því ýmiskonar áskoranir sem blasa við á komandi árum varðandi skipulag landnotkunar í dreifbýli svo sem í landbúnaði, náttúruvernd, landgræðslu, skógrækt og ferðamennsku. 

Í landsskipulagsstefnu verði greind sú þróun sem orðið hefur á undarförnum árum varðandi notkun lands í dreifbýli og þau áform um nýtingu sem fyrir liggja í áætlunum stjórnvalda, bæði á landsvísu og á sveitarstjórnarstigi og fyrir mismunandi geira. Landsskipulagsstefna setji fram leiðarljós um landnotkun í dreifbýli til leiðbeiningar fyrir skipulagsgerð sveitarfélaga og geri jafnframt eftir atvikum tillögur um frekari aðgerðir stjórnvalda til að stuðla að sjálfbærri landnýtingu í dreifbýli. Miðað er að því að fylgja landsskipulagsstefnu eftir með ítarlegri greiningu og stefnumótun um ráðstöfun lands í dreifbýli til mismunandi nota með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.


Yfirlit yfir áætlanir á landsvísu 

Í landsskipulagsstefnu er tekið saman yfirlit um stefnumörkun og helstu áætlanir sem liggja fyrir í einstökum málaflokkum á landsvísu og varða landnotkun og skipulagsgerð sveitarfélaga. Það er lagt til grundvallar við mótun landsskipulagsstefnu og er ætlað að vera sveitarfélögum til leiðbeiningar við skipulagsgerð. Yfirlitið varðar stefnu stjórnvalda um sjálfbæra þróun, loftslagsmál, byggðamál, ferðaþjónustu, landbúnað, náttúruvernd, orkumál, samgöngur o.fl.

Staða og þróun skipulagsmála

Við gerð landsskipulagsstefnu er tekin  saman skýrsla með yfirliti yfir helstu forsendur landsskipulagsstefnunnar, þ.e. greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála í landinu ásamt yfirliti yfir stefnu stjórnvalda í einstökum málaflokkum sem varða skipulag landnotkunar og byggðaþróun. Um er að ræða tölulegt yfirlit yfir stöðu og þróun í einstökum landshlutum svo sem tölur yfir íbúaþróun, húsbyggingar, landnotkun og umferð. Einnig er yfirlit um áætlaða þróun íbúabjölda og uppbyggingu samkvæmt skipulagsáætlunum sveitarfélaga og opinberar spár um íbúafjölda.

Auk þess að vera lögð til grundvallar við gerð landsskipulagsstefnu er skýrslunni ætlað að nýtast sveitarfélögum við gerð aðal- og svæðisskipulags.